Uppsjórinn

Uppsjórinn nær í raun yfir allan vatnsmassann frá yfirborði og niður að botni. Botninn sjálfur er ekki meðtalinn. Þar er að finna aragrúa lífvera af ýmsum stærðum og gerðum og er svifið undirstaða fæðukeðjunnar þar.

Svif greinist frá öðrum sjávarlífverum á því að það lifir í vatnsmassanum, yfirleitt í efri lögum sjávar, og hefur litla hreyfigetu. Það er því mjög háð hafstraumum. Svifið getur því ekki bara ákveðið að fara eitthvað ef það fær löngun til þess, það fer þangað sem straumarnir bera það. Þó er sú undantekning að margar sviflífverur stunda reglulegt dýptarflakk. Sumar tegundir eru í dvala í djúpsjó yfir veturinn þegar lítið er af fæðu. Mjög margar flakka líka daglega milli dýptarsviða. Yfir hábjartan daginn er uppsjórinn nefnilega frekar hættulegt búsvæði því að þá eiga rándýr auðvelt með að sjá bráð sína. Þá er öruggara fyrir smærri lífverurnar að halda sig dýpra þar sem ljós er minna. Þessar lífverur færa sig svo ofar í vatnsmassann yfir nóttina til að ná sér í fæðu. Flestar sviflífverur eru örsmáar og sjást illa eða ekki með berum augum. Þó eru einnig til hópar stórra svifdýra t.d. marglyttur.

Svifið skiptist í tvo meginhópa: Svifþörunga eða plöntusvif sem getur ljóstillífað og nýtt geisla sólar til að framleiða lífræn efni úr ólífrænum, og dýrasvif sem þarf að afla sér lífrænna efna með því að nýta aðrar lífverur sér til matar.

Dýrasvifið samanstendur af ýmsum dýrahópum, svo sem krabbadýrum, holdýrum og kambhveljum, en einnig lirfum fjölmargra botndýra og fisktegunda. Almennt séð eru krabbaflærnar líklega fjölliðaðasti hópurinn. Dýrasvifið nærist að megninu til á svifþörungum eða öðru dýrasvifi og er sjálft meginfæða margra annarra dýrahópa, allt frá loðnu til steypireyðar. Það „flytur“ því frumframleiðslu svifþörunga ofar í fæðukeðjuna til dýra sem ekki geta nýtt svifþörungana beint. Stærri dýrin í uppsjónum, sem geta þá synt á móti straumum, eru kölluð sunddýr. Þetta eru fiskar, smokkfiskar og sjávarspendýr. Ýmsar tegundir smokkfiska hafa fundist við Íslandi, þar á meðal risasmokkfiskurinn. Smokkfiskarnir eru hins vegar ekki algengir hér.

Pin It on Pinterest

Share This