Neðansjávarstrýtur

Neðansjávarstrýtur fundust fyrst árið 1977 nærri Galapagoseyjum, á um 2.500 metra dýpi. Verið var að rannsaka botngerð á svæðinu með fjarstýrðum kafbát. Lítið líf er að jafnaði á svo miklu dýpi í úthöfunum, því kom mjög á óvart að finna mjög lífauðugt vistkerfi þar sem annars var frekar snauður djúpsjávarbotn. Vistkerfi þetta var í kringum sérkennilegar strýtur sem spúðu út úr sér sjóðheitu vatni.

Neðansjávarstrýturnar eru í raun útfellingar sem myndast þegar heitt vatn sem kemur úr sprungum á botninum kemst í snertingu við kaldan sjóinn. Strýtur eða strompar byggjast smám saman upp svo að allt umhverfið verður mjög fjölbreytt og undarlegt að sjá. Vistkerfi djúpsjávarhverastrýtanna eru jafnframt einstök að því leyti að þau er óháð sólarljósi um orku. Þau byggjast þess í stað á örverum sem efnatillífa orkurík efnasambönd úr hverunum. Ýmsar stærri lífverur svo sem ormar, samlokur og rækjur lifa síðan í miklu magni þarna og éta þá annaðhvort bakteríuskánir eða eru í sambýli við örverurnar.

Djúpsjávarstrýturnar mynda því nokkurs konar vin í annars lífverusnauðri eyðimörk djúphafsins. Nú er ljóst að djúpsjávarstrýtur eru alls ekki jafn sjaldgæfar og áður var talið. Rannsóknir á strýtunum og lífríki þeirra eru þó erfiðar og kostnaðarsamar vegna þess hve djúpt þær eru.

Andstætt djúpsjávarhverunum hafa grunnsjávarhverir lengi verið þekktir og finnast þeir víða. Þeir hafa þó hins vegar ekki vakið jafn mikla athygli vegna þess að lífríki við þá er ekki jafn sérstakt og vegna þess að þar til strýturnar fundust í Eyjafirði, höfðu strýtumyndandi svæði ekki fundist á grunnslóð.

Ystuvíkurstrýturnar

Það hafði lengi leikið grunur á því að neðansjávarhveri væri að finna í Eyjafirði. Lengi vel reyndist þó erfitt að staðfesta þessar sögusagnir. Það var fyrst árið 1990 sem tilvist þeirra var sönnuð á dýptarmælum rannsóknarskipsins Bjarna Sæmundssonar. Þetta var í fyrsta skipti í heiminum sem staðfest var að neðansjávarhverastrýtur væri einnig að finna á grunnslóð. Þessar strýtur eru úti fyrir Ystuvík á austurströnd Eyafjarðar. Strýturnar eru því nefndar Ystuvíkurstrýturnar. Þetta eru þrjár strýtur á um það bil 65 metra dýpi. Sú stærsta teygir sig um 45 metra frá botni og er því tindur strýtunnar um 20 metra undir haffletinum.

Strýturnar eru nú friðlýst náttúruvætti og voru fyrsta svæðið neðansjávar til að fá slíka vernd. Ekki má stunda neinar veiðar í kringum þær og einnig er bannað að kasta akkeri nálægt þeim. Hins vegar er heimilt að kafa niður að þeim og skoða þær, en ekki má hrófla við þeim eða valda á þeim spjöllum.

Jarð- og örverufræði Ystuvíkurstrýtanna voru rannsökuð árin 1997 og 1998 og var þá fyrst kafað niður að þeim, bæði af kafara og í litlum kafbát. Vatnið sem kemur frá strýtunum er um 72°C heitt og er það nánast alveg ferskt og á því uppruna sinn í landi. Strýturnar líkjast um margt djúpsjávarstrýtum en eru gerðar úr smektít leir (efnafræðileg formúla þess er (Ca,Na)0.2Mg6Si7.2Al0 .8O20(OH)4*nH2O), á meðan djúpsjávarstrýtur eru úr anhýdríði (sem er miklu einfaldara eða CaSO4).

Arnarnesstrýturnar

Strýturnar norður af Arnarnesi fundust svo í ágúst 2004 við kortlagningu hafsbotnsins i nágrenni Arnarness. Fjölgeisladýptarmælingar með Baldri, mælingaskipi Landhelgisgæslunnar, sýndu þá langa röð strýtulega myndana á hafsbotninum. Þessar strýtur liggja eftir um 750 m langri línu með stefnu rétt austan við norður. Dýpi í nágrenni strýtanna er um 25 m þar sem grynnst er, en um 50 m þar sem dýpst er.
Fáum dögum eftir að strýturnar fundust var kafað niður að grynnstu strýtunum og staðfest að jarðhiti var mikill á svæðinu. Strýturnar við Arnarnes nefnast nú einu nafni Arnarnesstrýtur. Þær eru talsvert frábrugðnar Ystuvíkurstrýtunum skammt frá. Aðalmunurinn felst í því að Arnarnessvæðið er grynnra, mun stærra og er í raun samsett af fjölmörgum strýtum af ýmsum stærðum. Einnig er þarna að finna sprungur sem heitt vatn kemur upp um. Ystuvíkurstrýturnar hafa það þó fram yfir að vera mun hærri. Líklega er hæð strýtanna takmörk sett af öldugangi. Rof vegna öldugangs kemur í veg fyrir að þær nái að vaxa nær yfirborði en um 15 metra. Ystuvíkurstrýturnar eru á meira dýpi og ná því meiri hæð áður en rof vegna öldugangs stöðvar vöxt þeirra.

Erfitt er að spá fyrir um aldur strýtanna, en vísbendingar eru um að einstakar strýtur geti vaxið hratt jafnvel marga sentimetra á mánuði. Vistkerfið í kringum Arnarnesstrýturnar er mun fjölbreyttara en við Ystuvíkurstrýturnar. Líklega er það vegna þess að svæðið er stærra og býður upp á meiri fjölbreytileika. Þarna er mikið af botnföstum dýrum svo sem hveldýrum, mosadýrum, svömpum, sæfíflum og kræklingi. Einnig er mikið af rauðþörungum á grynnri svæðunum. Svæðin beint fyrir ofan útstreymið eru þó svo til ber, enda hefur vatnið mælst um 78°C heitt og því einungis á færi harðgerustu örvera að lifa í snertingu við það. Í kringum strýturnar og inn á milli þeirra hafa svo sést fjölmargar fisktegundir, svo sem steinbítur, sprettfiskur, hrognkelsi, þorskur, ýsa og ufsi. Allar eru þessar tegundir þó tiltölulega algengar í firðinum og því óljóst hvort þær hafa einhvern hag af nábýli við strýturnar.

 

Þrívíddarmynd af hverastrýtunum við Arnarnes, horft er í vestur.

Hverastrýtusvæðin tvö í Eyjafirði eru í raun einstök á heimsvísu og hafa, ásamt gjánni Silfru á Þingvöllum, orðið til þess að Ísland er nú orðið vinsælt meðal kafara víða um heim. Nánar á strytan.is

 

Pin It on Pinterest

Share This