Fjörur

Fjaran er auðvitað það svæði hafsins sem við þekkjum best. Ástæða þess að fjaran er kunnust er auðvitað sú að þetta er aðgengilegasti hluti sjávarins fyrir okkur landkrabbana. Fjaran er þó auðvitað á mörkum þess að vera land og sjór. Þar lifa líka í raun aðeins örfáar þeirra tegunda sem sjóinn prýða.
Fjörurnar eru annars mjög fjölbreyttar að gerð, allt frá leirum til brimasamra klettafjara. Klettafjörur er helst að finna á nesjum þar sem ágangur sjávar skolar burt lauslegu seti. Malarfjörur, sem eru einna útbreiddastar, eru þar sem skjólsælla er en leirur (eða leirufjörur) eru við ósa stóráa þar sem mikið set berst frá ánum. Þar safnast fyrir fíngert set úr árframburði. Þessar fjörugerðir
skapa mismunandi aðstæður fyrir lífverur og er tegundasamsetning því mjög misjöfn. Botnþörungar einkenna klettafjörur þar sem ekki er of mikið brim. Sé undirlagið fínna, eða brim of mikið ná þörungarnir ekki að festast við botninn, tegundirnar þola þetta þó misvel.

Almennt séð eru sjávarlífverur lítt áberandi efst í fjörunum, helst má finna skófir (sem eru sambýli sveppa og þörunga) sem mynda skán utan á steina, en einnig má oft finna ýmsar litlar tegundir þráð- eða himnulaga grænþörunga. Þegar neðar dregur og sjór flæðir því meira yfir fara brúnþörungar, sem við köllum venjulega þang, að verða algengir. Þarna má líka sjá hrúðurkarla, kræklinga, marflær og smásnigla. Fleiri og fleiri tegundir taka svo við eftir því sem neðar dregur þar til lífríkið verður ekki greint frá venjulegu sjávarlífi.
Útbreiðsla lífvera í fjöru er því áberandi beltaskipt. Tegundirnar laga sig að mismunandi dýpi og svæðum eða er ýtt út á jaðarsvæði í samkeppninni við aðrar tegundir. Almennt má segja að efri mörk þess sem þörungar og dýr geta lifað í fjöru ákvarðist af seiglu þeirra við að berjast við náttúruöflin.
Þær tegundir sem þola mestar sveiflur í hita, seltu og þurrki geta lifað ofar en aðrar. Einungis harðgerðustu tegundirnar geta lifað efst í fjörunni. Í neðri hluta fjörunnar og neðan fjörumarka stjórna hins vegar líffræðilegir þættir, svo sem samkeppnishæfnin og þol gegn afráni, mestu. Oft er öfugt samband þarna á milli, harðgerðustu lífverurnar hafa minnsta samkeppnishæfni.
Fjörur eru einnig nokkuð mismunandi milli landsvæða. Nánast öll suðurströndin er sendin og brimasöm. Þar er lítið líf því lífverur eiga erfitt um vik með að athafna sig á síbreytilegum sandinum. Fjölbreyttar fjörur eru við Austur- og Norðurland, þó er þar mest um klettafjörur. Tegundafjölbreytni er á hinn bóginn ekki sérlega mikil þar sem sjór er kaldur og færri tegundir finnast að jafnaði í köldum sjó en hlýjum.
Önnur ástæða fyrir tegundafábreytni er að það er fremur lítill munur á flóði og fjöru á Norður- og Austurlandi og fjörur því mjóar. Lífauðugustu fjörur landsins er að finna við Vesturland, þar sem sjór er fremur hlýr, mikið um grunnsævi og sker, og munur á flóði og fjöru er mikill. Þar er einnig að finna stærstu leirurnar, sem eru sérstaklega mikilvægar fyrir vaðfugla við Ísland. Í djúpum fjörðum eins og Eyjafirði finnast fleiri lífverutegundir utarlega í firðinum en innarlega. Þessi munur er sennilega að stórum hluta vegna áhrifa ferskvatns. Flestar sjávarlífverur þola illa eða alls ekki lága seltu og fæstar ferskvatnslífverur þola saltvatn, þannig að tiltölulega fáar tegundir geta hafst við þar sem þessir tveir heimar mætast. Áður fyrr voru fjörunytjar mikilvægar víða við Ísland, sumar þangtegundirnar eins og söl eru ætar og voru áður fyrr étnar í mun meira mæli en nú. Í fjörum safnaðist líka fyrir rekaviður sem var afar verðmætur á hinu nánast trjálausa Íslandi. Hvalreka var hægt að finna í fjörum auk þess sem hægt var að veiða eða safna ýmsum lífverum svo sem sel, hrognkelsi og kræklingi. Jarðir sem höfðu aðgang að góðum fjörum voru því verðmætar. Við skulum þó ekki dveljast of lengi við fjörurnar heldur halda dýpra.

Pin It on Pinterest

Share This