Búsvæði hafsins við Ísland

Hafinu er skipt upp í mismunandi svæði. Grynnsti hlutinn er ströndin eða fjaran, mörkin á milli hafs og lands. Borið saman við gríðarstórt úthafið er þetta mjótt og lítið svæði. Neðan við fjöruna er landgrunnið og grunnsævið yfir því.
Landgrunnið nær yfirleitt niður á um 200 m dýpi, stundum grynnra, stundum dýpra. Þetta er svæðið þar sem botnfiskveiðar fara að mestu fram. Neðan við þetta tekur við landgrunnsjaðarinn og svo landgrunnshlíðin. Takmarkaðar djúpsjávarveiðar eru stundaðar á grynnri hluta landgrunnshlíðarinnar.

Djúpsjórinn
Landgrunnshlíðin er yfirleitt brött til að byrja með en brattinn verður minni þegar neðar dregur. Að lokum jafnast hún út í djúpsjávarbotninn á 3.000 til 6.000 m dýpi. Hafið þar yfir er úthafið. Djúpsjávarbotninn er stundum skorinn í sundur af djúpsjávarrennunum sem ná allt að 11 km dýpt, engar slíkar fyrirfinnast á íslensku hafsvæði. Fiskar og aðrar lífverur sem lifa neðan landgrunnsins eru oft undarlegar í útliti, mjög ólíkir lífverunum sem við eigum að venjast af landgrunninu. Mesta hafdýpið innan íslenskrar lögsögu er um 3.300 m.
Í djúphafinu ríkir myrkur, kuldi og stöðugleiki ólíkt því sem gerist á landgrunninu og við yfirborð sjávar. Árstíðaskipti hafa afar lítil áhrif svona djúpt niður. Nánast engar veiðar eru stundaðar í djúpsjónum og rannsóknir því afar takmarkaðar. Þekking okkar á þessu gríðarlega stóra búsvæði er af þessum sökum lítil. Stundum hefur verið sagt að við þekkjum yfirborð tunglsins betur en djúpsjávarbotninn. Aðstæður í djúphafinu norðan við Ísland eru reyndar mjög ólíkar aðstæðum í djúphafinu sunnan við landið. Djúpsjórinn er miklu kaldari fyrir Norðurlandi eða undir 0°C. Hann frýs ekki vegna seltunnar. Sunnan við landið er djúpsjórinn um 3°C. Þetta gerir það að verkum að djúpsjávarlífverurnar norðan við Ísland eru allt aðrar en sunnan við landið.

Landgrunnið
Við Ísland er tiltölulega stórt landgrunn. Það er í raun beint framhald af landinu, það er eiginlega að sumu leyti bara land sem er undir sjó. Þar sem yfirborð sjávar hefur í gegnum jarðsöguna hækkað og lækkað á víxl þá hefur landgrunnið líka stundum staðið á þurru þegar yfirborð sjávar var mjög lágt.
Þegar yfirborð sjávar var hátt voru stór svæði, sem eru nú láglendi, undir sjávarmáli. Það er ástæða þess að menn hafa fundið hvalabeinagrindur uppi á fjöllum hérlendis.
Skilin á milli landgrunnsins í hafinu og láglendis á landi eru því alls ekki skörp en öðru máli gegnir um skilin milli landgrunnsins og úthafsdjúpsins.
Landgrunnið breytist ekki smám saman í djúpið heldur skilur yfirleitt snarbrattur landgrunnsjaðarinn á milli. Landgrunnið hér er 115.000 ferkílómetrar að stærð niður á 200 m dýpi. Ísland ofansjávar er svipað að stærð eða 103.000 ferkílómetrar. Landgrunn Íslands er stærst við Vesturland þar sem það teygir sig langt í átt að Grænlandi. Minnst er það hins vegar við Suðurland þar sem dýpkar mjög fljótt niður á meira en þúsund metra dýpi. Landgrunnið er vogskorið líkt og landið sjálft og er yfirleitt framhald af fjörðum og flóum landsins á hafsbotninum. Þetta kallast álar eða djúp. Úti fyrir Eyjafirði skerst til dæmis djúpur Eyjafjarðarállinn inn í landgrunnið. Á milli álanna og djúpanna eru svo grunnin, þau samsvara skögum á landi. Ef grunnin eru ekki beintengd neinum skaga eru þau kölluð bankar. Þó að við sjáum ekki með berum augum hvað er undir öldunum þá þekkja sjómenn þetta landslag vel og stunda sínar veiðar samkvæmt því.
Ísland er í raun krossgötur tveggja úthafshryggja. Grænlands- Skotlandshryggurinn teygir sig frá suðaustri til norðvesturs og eru bæði Færeyjar og Ísland hluti af honum. Miðatlantshafshryggurinn teygir sig svo frá suðvestri til norðausturs, allt frá suðurskauti til norðurskauts. Ísland er eiginlega eini staðurinn þar sem þessi hryggur nær upp fyrir sjávarmál. Fyrir sunnan landið kallast hann Reykjaneshryggur en Kolbeinseyjarhryggur fyrir norðan. Hryggir þessir hafa mjög mikil áhrif á hafstrauma með því að beina þeim í ýmsar áttir.

Lífbelti
Vegna straumakerfanna er Ísland á mörkum tveggja heima, kaldtempraða beltisins og kuldabeltisins. Hér finnast því tegundir lífvera frá báðum þessum beltum. Þetta veldur því einnig að umhverfissveiflur geta hér verið miklar og óútreiknanlegar.
Reyndar eru aðstæður í hlýrri sjónum úti fyrir Suðurlandi frekar stöðugar. Þar er tegundafjölbreytni mikil og þar finnast því margar tegundir sem algengar eru á kaldtempruðum hafsvæðum heimsins. Sveiflur í hitastigi og öðrum umhverfisháttum eru mun meiri við Norðurland og þar finnast færri tegundir að staðaldri. Þetta er vegna þess að fjölmargar tegundir sem ella einkenna kaldtempraða beltið fyrir sunnan eða kuldabeltið fyrir norðan geta ekki lifað við þessar umhverfissveiflur til lengri tíma. Þær vilja annaðhvort hafa kalt eða heitt, ekki sitt á hvað. Á móti kemur að fjölmargir gestir láta sjá sig þar reglulega og fer það þá eftir tíðarfari hvort það eru tegundir ættaðar úr Íshafinu eða af suðlægari slóðum.
Reyndar er það svo að náttúran er síbreytileg. Nýjar tegundir eru sífellt að bætast við fánu landsins. s.s. sandrækja, flundra, klettakrabbi og kóngakrabbi (eini kóngakrabbinn sem hefur fundist var þó dauður). Hitastig sjávar við landið hefur verið að hækka á síðasta áratug og skýrir það komu margra tegunda.
Umhverfið er hreinlega að breytast. Sumt er þó mannanna verk, nýjar tegundir berast til dæmis milli hafsvæða með kjölvatni skipa eða þær eru viljandi færðar á milli hafsvæða. Til dæmis er talið að klettakrabbinn hafi komið hingað með kjölvatni. Kóngakrabbarnir, sem áður lifði bara í Kyrrahafinu, voru á hinn bóginn vísvitandi sleppt af Rússum í Barentshafið.

Pin It on Pinterest

Share This