Síld

Clupea harengus

Síldin er klassískur uppsjávarfiskur, rennileg með silfraðan líkama, dökk að ofan og ljós að neðan. Algeng stærð er milli 30 og 40 cm en sú stærsta sem mælst hefur á Íslandsmiðum var 46,5 cm. Síld getur náð allt að 25 ára aldri. Hún lifir á svifkrabbadýrum, aðallega rauðátu.

Útbreiðsla

Hún er sennilega algengasta fisktegundin í Norður-Atlantshafinu og er útbreiðsla hennar þar nánast sú sama og þorsksins. Náskyld tegund lifir í norðanverðu Kyrrahafi og reyndar af einhverjum ástæðum líka í Hvítahafi. Þriðja tegundin finnst svo við strendur Síle.

Lífshættir

Síldinni í Norður-Atlantshafi er skipt í nokkra stofna sem hrygna á mismunandi svæðum og tímum. Hér við land finnast þrír stofnar. Sögulega séð hefur norsk-íslenska vorgotssíldinverið stærstur þessara stofna. Þessi síld hrygnir meðfram miðri strönd Noregs. Ungviði rekur svo norður eftir og heldur sig í Barentshafi þar sem það nær kynþroska við 4 til 6 ára aldur. Þá fer síldin í stórfelldar fæðugöngur um Norður-Atlantshaf, þar með talið á miðin við Íslandi. Íslenska sumargotssíldin er frábrugðin að því leyti að hún fer ekki út fyrir landgrunn Íslands. Hún hrygnir einnig seinna eða í júlí.

Veiðar

Síld hefur verið veidd í aldaraðir og eru hún og þorskurinn einu fisktegundirnar sem sett hafa mark sitt á sögu Evrópu. Síldveiði og verslun skipti t.d. miklu máli í uppgangi ríkja í Norðvestur-Evrópu, ríkja sem um tíma réðu nánast öllum heiminum. Síldin var nefnilega auðfengin, holl og ódýr fæða sem var afar nauðsynleg vegna mannfjölgunar og stækkunar borga í Evrópu. Að auki voru síld- og þorskveiðar mikilvægar þjálfunarbúðir fyrir flota þessara þjóða. Veiðarnar voru hins vegar að mestu strandveiðar þar til á nítjándu öldinni þegar miklar úthafsveiðar þróuðust með bættri tækni og skipakosti. Tæknin batnaði svo jafnt og þétt þar til alheimsveiði á síld náði hámarki rétt rúmlega 4 milljónum tonna árið 1966. Á sama tíma náði afli Íslendinga hámarki og var um fjórðungur af heimsafla. Eftir þetta hrundu síldarstofnarnir svo einn af öðrum því að veiðin var langt umfram það sem stofnarnir þoldu. Þetta hrun var mikið áfall fyrir efnahag Íslands.
Síldveiðar lögðust nánast af á Íslandsmiðum eftir hrunið.  Íslenska sumargotssíldin var síðan fyrst íslensku stofnanna að braggast og veiddu Íslendingar bara úr þeim stofni um tíma, þar til árið 1994 þegar norsk-íslenski stofninn var orðinn nógu stór til að Íslendingar gætu hafið veiðar á honum aftur.

Þegar síldveiðar hófust við Ísland seint á 19. öldinni, var stærstur hluti aflans saltaður. Síðar þegar afli jókst mikið réðu söltunarstöðvarnar ekki lengur við þetta magn og meira var brætt í mjöl og lýsi. Nú til dags er meirihluti síldarinnar fryst annaðhvort á sjó eða í landi og selt til manneldis. Nútímasíldarvinnsla er gjörólík því sem áður var. Verksmiðjurnar eru orðnar hátæknivæddar og fáa þarf því til að vinna mikið magn. Skipin hafa líka tekið miklum breytingum og veiðir nútímasíldveiðiskip á við tugi eða jafnvel hundruði síldarbáta frá upphafsárum síldveiðanna.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This