Purpurahimna

Wildemania amplissima (Kjellman) Foslie

Purpurahimnur fann Erlendur Bogason og myndaði á um 10 m dýpi við Hólmanes í Reyðarfirði, Austurland. Hann safnaði þeim 30. ágúst 2022 (1. mynd). Plönturnar voru óvenju langar (126 cm) og 10 til 15 cm á breidd. Þær uxu á litlum skeljum og brotum af kóralþörungum á sand- og malarbotni.

1. mynd. Wildemania amplissima á c. 10 m dýpi við Hólmanes, Reyðarfirði.

2. mynd. Wildemania amplissima.(l: 40 cm, b: 12 cm). Ljósu blettirnir meðfram jaðri himnunnar eru æxlunarflekkir.

Æxlunarflekkir voru meðfram jaðri himnunnar báðum megin (2. mynd). Himnurnar voru dumbrauðar eða rauðbrúnar á lit, tvö frumulög á þykkt. Þversneið (TS) sem tekin var neðarlega á plöntunni var um 62 – 68 µm að þykk (3. mynd). Þegar horft var ofan á yfirborð himnunnar voru frumurnar um 9 – 19 x 22 – 36 µm að stærð (4. mynd).

3. Þversneið sem tekin er neðarlega af himnu.

4. mynd. Séð ofan á yfirborð frumunnar

Kven- og karl-”hirslur”, voru hver innan um aðra í flekkjunum (5. mynd). Þykkt himnunnar við æxlunarflekki var 40 – 48 µm (6. mynd).

5. mynd. Karlæxlunarfrumur eru smáar og ljósgular, 4 og 4 saman í klösum. Egginn eru talsvert stærri og eru rauð.

6. mynd. Þversneið af æxlunarflekk með bæði karl- og kvenæxlunarfrumum.

Wildemania amplissima er ýmist eitt eða tvö frumulög að þykkt og tilheyrir sömu ættkvísl purpurahimna og sú sem er t.d. algengust a djúpinu við Surtsey (Wildemania miniata) sem alltaf er gerð úr tveimur frumulögum. Þriðja tegundin af þessari ættkvísl sem finnst hér við land og einnig tvö frumulög á þykkt er tegund sem einungis hefur fundist djúpt (~30 m) (Wildemania abyssicola). Öfugt við tegundina sem fannst við Hólmanes (Wildemania amplissima) hafa báðar þessar tegundir aðskilin æxlunarsvæði, karlkyns öðrum megin á himnunni og kvenkyns hinum megin, en ekki blandað saman eins og Hólmanes-plantan. Wildemania amplissima finnst allt í kringum land (7. mynd), algengast er að hún vaxi á öðrum þörungum, neðst í fjöru. Hún birtist oftast upp úr miðju sumri og hverfur svo aftur þegar fer að hausta. Stærstu plöntur sem fundist hafa af Wildemania amplissima voru 180 cm og fundust við England en þær stærstu við Íslandsstrendur eru um 20-30cm langar.

7. mynd Purpurahimna við Ísland

 

Texti: Karl Gunnarsson – Hafrannsóknarstofnun

Pin It on Pinterest

Share This