Hnúfubakur

Megaptera novaeangliae

Hnúfubakur verður mest um 17 m lengd og 40 tonn, meðalstærð er um 32 t. Hann er með kubbslegra byggingarlag en reyðhvalirnir og því ekki eins hraðsyntur. Hnúfubakurinn er hins vegar mun leikglaðari og forvitnari að eðlisfari. Hann er auðþekktur af risastórum frambægslunum. Hann er líka þekktur fyrir söng sinn.

Útbreiðsla

Hann finnst um öll heimshöfin en eins og flestir skíðishvalir fer hann árlega í miklar göngur. Vetrarstöðvar Norður Atlantshafsstofnsins eru við kóralrif í Karíbahafinu, en hann heldur á norðlægar slóðir til fæðuöflunar á sumrin. Nokkur fjöldi er þó hér við land allt árið.

Lífshættir

Hnúfubakurinn er tækifærissinni í fæðuvali líkt og hrefna, nærist jöfnum höndum á fiskmeti og svifdýrum. Hann er einstakur meðal skíðishvala vegna þess að stundum hafa hnúfubakar samvinnu við fæðuöflun. Hjálpast t.d. við að umkringja og þrengja að torfum uppsjávarfiska. Hnúfubakurinn eltir loðnu- og síldartorfur hér við land og er oft að þvælast fyrir sjómönnum. Á það til að rífa nætur í tætlur ef hann festist í þeim.

Veiðar

Hann var ekki sérlega eftirsóttur af hvalveiðimönnum fyrri tíma sem sóttust aðallega eftir sléttbökum. Líklegt er þó að meira hafi verið veitt af hnúfubökum en öðrum reyðhvölum vegna strandlægar útbreiðslu og minni sundhraða. Þetta breyttist þó með gufuskipunum og sprengiskutlunum rétt fyrir aldamótin 1900. Þá fóru Norðmenn og síðar aðrar þjóðir að veiða þá í miklum mæli. Fljótlega eyddi hvalveiðiflotar nær öllum stofninum í N-Atlantshafi, og síðar á öðrum stöðum. Rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina var ekki eftir nema smá brot af því sem áður var og var hann því alfriðaður 1955.

Hnúfubakar voru þá orðnir afar sjaldgæfir við Ísland. Sem betur fer hefur þó orðið umsnúningur. Á síðustu áratugum hefur hnúfubökum aftur tekið að fjölga og teljast þeir nú algengir hér við land. Áætlað hefur verið að minnst 15.000 dýr finnist reglulega við Ísland og heildarstofn í heiminum sé allt að 80.000 dýr.

HÞV

Myndir: Tryggvi Sveinsson

Pin It on Pinterest

Share This