Grjótkrabbi

Cancer irroratus (Atlantic rock crab)

Grjótkrabbinn er nýbúi við Ísland og stundum talað um hann sem ágenga tegund sem geti haft áhrif til breytinga á lífríkinu. Enn eru þó engin merki enn um að hann hafi gert nokkurn skaða hér.

Grjótkrabbi fannst fyrst við Ísland í Hvalfirði árið 2006. Hann gæti hafa borist til Íslands á lirfustigi með kjölvatni skipa sem dælt var í skipin erlendis og úr því hér. Árið 2014 fannst hann í Eyjafirði. Hann er því smá saman að breiðast út um landið. Líklega er hann þó á norðurmörkum útbreiðslu sinnar hér við Ísland en þau mörk færast norðar ef sjórinn heldur áfram að hlýna.

Grjótkrabbi er norður-amerísk tegund sem er að finna allt frá Labrador suður til Suður-Karólínu. Hann finnst frá grunnsævi og alveg niður á 750 metra dýpi.

Ólíkt trjónukrabbanum, sem er langalgengasti krabbinn við ísland, þá er grjótkrabbinn nokkuð verðmætur. Hann er með þykkar lappir og vöðvamikill. Hann gæti því hugsanlega orðið verðmæt nytjategund fyrir okkur.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This