Burstaormar

Polychaeta

Ef þú sérð orm í sjónum eru því meiri líkur en minni á að það sé burstaormur.

Helsta einkenni burstaorma eru fóttotur eftir öllum líkamanum og burstar á þeim. Bæði fóttoturnar og burstarnir geta verið af ýmsum stærðum og gerðum eftir tegundum. Lífshættir og útlit burstaorma getur verið mjög fjölbreytt. Sumar tegundir eru einfaldar í útliti líkt og ánamaðkar, en aðrar líkjast ormum lítið.

Margir burstaormar sía sjóinn með marggreindri netkórónu á höfðinu, þar sem fæðuagnir festast. Aðrir éta botnsetið sjálft, því að í því er talsvert af lífrænum leifum. Enn aðrir eru rándýr með stóra og sterka kjálka. Flestir lifa burstaormarnir á botninum, en þó eru til sviflægar tegundir.

Í stórum dráttum má skipta burstaormum í tvo flokka. Frítt lifandi ormar hafa ekki fasta búsetu en skríða um botninn í leit að fæðu en pípuormarnir lifa ofan í botnsetinu og búa sér til göng eða pípur, þeim er lýst sérstaklega.’

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This