Ýsa

Melanogrammus aeglefinus

Ýsan er frekar stór þorskfiskur þótt hún sé allajafna minni en frændi hennar, þorskurinn. Algeng lengd í afla er frá 50 til 65 cm. Stærsta ýsan sem veiðst hefur á Íslandsmiðum mældist 112 cm.

Útbreiðsla

Ýsan er algeng allt í kringum Ísland þegar vel árar, en á köldum tímabilum er hún sjaldgæf í kaldari sjónum norðan og austan við landið. Hana má oftast finna á mjúkum botni á 10 til 200 m dýpi. Hún er algeng bæði vestan og austanmegin í Atlantshafinu en finnst ekki í Kyrrahafinu.

Lífshættir

Stundum er sagt að ýsan sé hrææta. Það er alrangt, hún er botndýraæta og étur aðallega burstaorma og smáskeljar sem lifa á eða í botninum. Hún neitar sér þó ekki um loðnu og sandsíli þegar það eru í boði.

Lífsferill ýsunnar er svipaður og hjá þorskinum. Aðalhrygningin á sér stað með suður- og suðvesturströndinni frá apríl til maí. Hrognin og lirfurnar reka svo með straumum vestur, norður og stundum austur með landinu yfir sumarið. Að hausti leita seiðin svo til botns. Oft er því mikið af smáýsu úti fyrir Norðurlandi. Vöxtur er frekar hraður fyrstu tvö árin, töluvert hraðari en hjá þorski. Ýsan verður kynþroska 3 til 4 ára, eða ári eða tveimur á undan þorskinum. Fiskar vaxa yfirleitt hægar eftir kynþroska og þar af leiðandi vex þorskurinn hraðar en ýsan eftir 3 ára aldur og verður stærri. Elsta ýsan sem hefur mælst á Íslandsmiðum var 18 ára.

Nytjar

Ýsa er veidd allt í kringum landið og allt árið umkring. Bestu veiðislóðirnar eru vestan við landið. Hún er aðallega veidd með botnvörpu, en einnig með línu og dragnót. Stundum er sótt beint í ýsu en hún er einnig algengur meðafli á þorskveiðum þar sem útbreiðsla tegundanna er svipuð. Sögulega hefur ýsuafli íslenskra skipa verið kringum 50.000 tonn á ári. Eftir árið 2000 stækkaði stofninn þó mjög mikið og fór afli þá yfir 100.000 tonn. Afli hefur hins vegar minnkað aftur samhliða því að stofninn minnkaði. Erlend skip, sérstaklega enskir togarar, veiddu svipað magn og Íslendingar áður en lögsagan var færð út.

Ýsan er unnin svipað og þorskinn. Stærsti hlutinn er ísaður um borð í veiðiskipunum og svo flakaður og frystur í landi. Nokkuð stór hluti er einnig fluttur beint ferskur úr landi í flugi eða í gámum. Þó er sá munur á ýsu og þorski að lítill hluti ýsunnar er þurrkaður eða saltaður, en ýsan hentar ekki jafnvel til söltunar og þorskurinn. Langstærstu ýsumarkaðirnir eru í Bretlandi og Bandaríkjunum. Lítill hluti er fluttur út til annarra landa.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This