Tindaskata

Amblyraja radiata

Tindaskatan (líka kölluð tindabikkja) er smágerð skötutegund, yfirleitt ekki meira en 70 cm löng en getur þó náð allt að 100 cm.

Útbreiðsla

Hún finnst allt í kringum landið og er í raun ein útbreiddasta fisktegundin á Íslandsmiðum . Hún er algeng á 20 til 1000 m dýpi og jafnvel dýpra. Tindaskatan er langalgengasta brjóskfiskstegundin á Íslandsmiðum og í raun sú eina sem getur talist algeng á landgrunninu. Hún finnst bæði austan- og vestanmegin í Norður- Atlantshafinu. Náskyldar tegundir finnast um öll heimsins höf.

Lífshættir

Tindaskatan étur ýmsa bráð, svo sem fiska eins og sandsíli, loðnu og smáa þorskfiska, en einnig botnlæg krabbadýr og aðra hryggleysingja. Ekki er mikið vitað um hrygninguna en hún er talin vera dreifð yfir allt árið og nær hámarki á sumrin. Erfitt er að meta aldur brjóskfiska, en talið er að tindaskatan geti náð að minnsta kosti 20 ára aldri.

Nytjar

Tindaskatan hefur alla tíð verið veidd sem meðafli í ýmis veiðarfæri við Ísland og var lengi vel talin verðlaus og henni hent. Landaður afli óx þó úr nánast engu árið 1980 í meira en 1000 tonn á ári, eftir 1995. Aflinn hefur verið af þeirri stærðargráðu síðan þá. Aukning má líklega skýra með því að sjómenn hafi farið að hirða hana.

Hlutfallslega stór hluti fer nú á innanlandsmarkað. Ástæðan fyrir þessu er að skatan, sem hefur verið hefðbundin matur Íslendinga í gegnum aldirnar, er orðin sjaldgæf og því hefur tindaskatan komið sem staðgengill hennar á Þorláksmessu. Þetta er hið besta mál þar sem tindaskatan er ágætis matfiskur og nóg er til af henni.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This