Þykkvalúra

Microstomus kitt

Þykkvalúran, sem er oft kölluð sólkoli, er miðlungsstór frekar samanrekinn flatfiskur, yfirleitt um 30 cm langur, en stærsti einstaklingurinn sem veiðst hefur á Íslandsmiðum mældist 63 cm.

Heimkynni

Hún finnst allt í kringum landið, en er mun sjaldgæfari í kaldsjónum norðan og austan við landið. Hún heldur sig yfirleitt á grýttum- eða sandbotni á 50 til 350 m dýpi. Hún finnst bæði Ameríku- og Evrópumegin í Norður-Atlantshafinu. Náskyldar tegundir finnast einnig í Norður Kyrrahafinu.

Lífhættir

Þykkvalúran étur aðallega burstaorma, en einnig í minna mæli smáfiska. Lítill munnur takmarkar þó fæðusvið hennar og má segja að hann sé nokkuð sérhæfður í að sjúga upp orma. Hrygning á sér stað meðfram suður- og suðvesturströndinni frá mars til júní. Vöxtur er frekar hægur, en hrygnurnar vaxa hraðar en hængarnir. Flestir hængar verða kynþroska við 5 ára aldur, en hrygnurnar 7 ára. Á Íslandsmiðum getur þykkvalúran náð 14 ára aldri.

Nytjar

Kílóaverð þykkvalúru er með því hæsta af flatfiskunum. Þykkvalúran var því, á eftir lúðu (sem er enn verðmætari) og skarkola (sem var mun algengari), mjög eftirsótt af erlendum togurum. Afli þeirra náði hámarki um 3.000 tonn árið 1937. Aflinn minnkaði svo aftur þegar Íslendingar byrjuðu smám saman að víkka út efnahagslögsöguna. Þykkvalúra hefur ekki verið mjög mikilvæg tegund í íslenskum sjávarútvegi og hefur yfirleitt verið meðafli. Á tímabilinu frá 1974 til 1984 var afli lítill, en jókst hratt eftir 1985 og hefur verið nokkuð mikill síðastliðin ár.

Meirihluti aflans er fluttur út ferskur í gámum eða með flugi eins og algengt er með verðmætar tegundir. Nánast öll þykkvalúra er flutt út til Bretlands.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This