Stórþari

Laminaria hyperborea (Tangle)

Stórþarinn er stórvaxnasti þörungurinn við Ísland, hann getur orðið allt að fimm metrar á lengd og allt að 20 ára gamall. Hann er með langan blaðlausan stilk og stóru blaði á enda stilknsins sem er klofinn í marga hluta. Stilkur stórþarans er stór og sterkur og myndar í raun trén í þaraskógunum. Stilkurinn er oft þakinn ásætum til dæmis öðrum smærri botnþörungategundum og botnföstum dýrum svo sem hveldýrum.

Stórir brúnþörungar eins og stórþarinn mynda oft víðáttumikla þaraskóga á grunnsævi neðan fjöru. Þeim svipar að mörgu leyti til skóga á landi. Frumframleiðni þaraskóganna á hvern fermetra er með því hæsta sem þekkist, svipuð og frumskóga hitabeltisins. Þar er því meiri lífmassaframleiðsla á fermetra en annars staðar þekkist á eða við Ísland.

Heildarfrumframleiðni þaraskóganna er þó mun minni en svifþörunganna í úthafinu því þaraskógarnir eru einungis á mjóu belti við strandlengjuna á meðan svifþörungarnir finnast á miklu víðáttumeira svæði. Líkt og í hefðbundnum skógum þrífast líka fjölmargar smærri þörungategundir og dýr í skjóli innan um stórvaxinn þarann eða á þarastöngum og blöðum.

Stórþarinn finnst allt í kringum Ísland og er ríkjandi víða á klapparbotni. Hann finnst niður á allt að 30 metra dýpi ef sjórinn er nægilega tær. Erlendis finnst hann við strendur Evrópu frá Portúgal til Norður Noregs.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This