Stórkrossi

Asterias rubens

Krossfiskar virðast ekkert sérlega grimmdarlegir við fyrstu sýn. Þetta er þó mjög villandi því flestir eru þeir í raun skæð rándýr sem lifa á öðrum hryggleysingjum, sérstaklega samlokum. Þeir ráða niðurlögum samlokunnar með því að festa sogfætur, sem eru fjölmargir undir fótum þeirra, við báða skeljahelmingana. Síðan toga þeir samlokuna smám saman í sundur. Átakið er ekki mikið en það er stöðugt og að lokum þreytist samlokan, fer að skorta súrefni og opnast. Krossfiskurinn hvolfir þá maganum inn í samlokuna og tekur að melta skelfiskinn utanfrá.

Algengasta krossfiskategundin er stórkrossi sem finnst allt í kringum landið og er stór og áberandi. Sjaldgæft er að finna skrápdýr í fjörum en stórkrossinn er þar einna helst að finna. Hann þykir mikill skaðvaldur á hörpudisk og kræklingsslóðum því hann er mikilvirkt rándýr á samlokur. Krossfiskar og reyndar flest skrápdýr eru ákaflega harðgerðar skepnur. Krossfiskar geta t.d. misst nánast alla sína arma því nýir vaxa bara í staðinn.

HÞV

St

Pin It on Pinterest

Share This