Steinbítur

Anarhichas lupus

Steinbítur er langur og hausstór fiskur með stórar og sterkar tennur. Algengt er að hann sé 60 til 110 cm langur og 2,5 til 15 kg. Hann hefur kúpt enni og þykkar varir. Fjórar stórar, bognar vígtennur eru fremst í hvorum skolti og fyrir aftan þær breiðir og snubbóttir jaxlar í röð inn eftir báðum gómum. Einn samfelldur, hár bakuggi nær alla leið frá haus aftur að sporði. Raufarugginn er einn og nær frá sporði fram undir miðjan fisk. Eyruggarnir eru breiðir og bogadregnir fyrir endann. Engir kviðuggar eru á steinbít.

Liturinn er blágrár með 10 til 12 dekkri þverrákum á hvorri hlið. Kviðurinn er ljósgrár. Roðið á steinbítnum er þykkt og slímugt en hreistrið mjög smátt.

Heimkynni

Við Ísland er steinbítur algengur allt í kringum land. Mest veiðist þó af honum við Vestfirði. Hann er botnfiskur og er algengastur á 50 til 150 m dýpi. Steinbítur hefur engan sundmaga og á því erfitt með að lyfta sér frá botni nema í stuttan tíma. Á veturna heldur hann sig fremur djúpt en á vorin gengur hann upp á grynningar og getur þá veiðst allt upp á 10 m dýpi.

Heimkynni steinbíts eru í Barentshafi og N-Atlandshafi frá Svalbarða, Hvítahafi og Múrmanskströndum, meðfram Noregi og inn í vestanvert Eystrasalt, í Norðursjó og suður í Biskayaflóa. Þá er hann við Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland. Í NV-Atlantshafi er hann við Grænland, Kanada frá Labrador og austurströnd Bandaríkjanna, suður til Þorskhöfða og jafnvel til Nýju-Jersey.

Lífshættir

Steinbíturinn lifir á 10-300 metra dýpi og hann kann best við sig á leir- eða sandbotni. Steinbíturinn hrygnir hér við land á haustin og snemma vetrar, í október og nóvember. Aðalhrygningastöðvarnar eru á 160-200 metra dýpi undan Vesturlandi og Vestfjörðum. Einnig hrygnir hann í Lónsdýpi undan SA-landi. Eggin eru 5-6 mm í þvermál og er það frekar stórt. Eftir að frjóvgun hefur farið fram er hrygnt í kökk, sem festur er við botninn. Um hrygningartímann, að hausti og snemma vetrar, missir steinbíturinn tennurnar og er tannlaus um tíma og tekur þá ekki til sín fæðu. Síðan vaxa nýjar tennur og er hann þá orðinn rýr og sækir upp á grunnslóð í leit að fæðu, sem er fyrst og fremst alls konar botndýr, einkum skeljar, eins og aða og kúfiskur, krabbadýr, sniglar, ígulker, en einnig étur steinbíturinn töluvert af öðrum fiski og þá einkum loðnu.

Nýting

Steinbítur er talsvert veiddur hér við land og er meðal annars nýttur sem matfiskur. Lítill hluti aflans er hertur.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This