Skrápflúra

Hippoglossoides platessoides (Long rough dab)

Skrápflúran getur náð allt að 60 cm lengd, en algeng stærð hænga er milli 15 og 20 cm og hrygna milli 20 og 40 cm. Hrygnur eru því mun stærri. Vöxtur er hægur, en hrygnur vaxa hraðar og verða mun eldri og stærri en hængarnir, allt að 19 ára gamlar.

Útbreiðsla

Skrápflúran er ein algengasta og líklega útbreiddasta fisktegund Íslandsmiða. Hún er mjög algeng allt í kringum landið á 10 til 400 m dýpi, yfirleitt á leirbotni en einnig á öðrum botngerðum. Útbreiðslan er nokkuð jöfn en á nokkrum svæðum finnast stærri einstaklingar og virðast það vera hrygningarslóðir. Skrápflúra finnst báðum megin Atlantshafsins og hún á nokkra nána ættingja í Norður-Kyrrahafinu.

Lífshættir

Helmingur hænganna nær kynþroska við 3 ára aldur en hrygnurnar 4 eða 5 ára. Fæðusvið skrápflúru er vítt en hún étur mest ýmsa botnhryggleysingja þegar hún er lítil. Þegar hún vex verða ýmsir smáfiskar eins og loðna mikilvæg fæða.

Nytjar

Skrápflúran hafði í raun enga veiðisögu á Íslandsmiðum fram til ársins 1986. Aðeins nokkur tonn voru tilkynnt fyrr á þessari öld af erlendum togurum. Vegna mikillar útbreiðslu en lágs verðs var henni nánast örugglega hent í miklu magni. Nú til dags er smávegis veitt af henni. 

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This