Skollakoppur

Strongylocentrotus droebachiensis (Green sea urchin)

Skrápdýrategundir við Ísland eru svo sem ekki margar, en þær eru flestar stórar og áberandi í lífríki sjávarbotnsins. Krossfiskarnir eru líklega algengastir en ígulker og sæbjúgu eru líka stór og geta verið áberandi. Skrápdýr draga nafn sitt af kalkflögum sem eru í húð þeirra. Hjá sumum þeirra mynda flögurnar samfellda skel, líkt og hjá ígulkerum. Hjá öðrum, til dæmis sæbjúgum, eru þetta litlar lausar flögur.

Skollakoppurinn er algengur við þarajaðarinn rétt neðan fjörumarka en finnst einnig á miklu dýpi. Hann er ein af fremur fáum lífverum sem þolir breitt dýptarsvið.

Yfirleitt er skollakoppur í þaraskógi fremur friðsæl skepna. Hann sniglast um á milli þarastöngla og étur dauðar þarablöðkur eða hræ. Þekkt er hinsvegar að hann getur orðið að plágu ef mikið er af honum. Þá breytist atferlið og hann fer að klifra upp þarastönglana og éta þarann lifandi.

Þetta hefur einmitt gerst í Eyjafirði. Geysimikið er af skollakoppi við þarajaðarinn og étur hann þaraskóginn smám saman og skilur eftir sig eyðimörk. Skollakoppurinn getur svo þraukað á mjög lítilli fæðu í nokkur ár. Nýgræðingurinn nær því ekki að spretta og þaraskógarnir fara ekki að vaxa aftur fyrr en ígulkerin eru öll dauð.

Ígulkeraveiðar hófust hér við land árið 1992 og náðu hámarki 1.500 tonnum árið 1994, mest var veitt í Breiðafirði og Húnaflóa. Markaðurinn fyrir ígulkerahrognin hrundi hins vegar árið 1997 og hafa veiðar lítið verið stundaðar síðan þá. Þótt nóg sé af ígulkerum og markaðir hafi náð sér eru þau mjög viðkvæm og vandmeðfarin vara og er það líklega ástæða þess að veiðar hafa ekki náð sér að fullu aftur.

HÞV

 

Pin It on Pinterest

Share This