Sandkoli

Limanda limanda

Sandkoli er lítill samanborið við aðra flatfiska sem teljast til nytjategunda hér, yfirleitt á bilinu 20 til 35 cm að lengd. Sá stærsti sem fundist hefur hér við landi var 48 cm, sem er heimsmet.  Sandkolinn er nokkuð líkur litlum skarkola en auðgreindur á því að ef strokið er upp bakhliðina á honum er roð hans líkt og sandpappír. Skarkolinn er aftur á móti sléttur viðkomu. Erfitt er að segja hvort sandkolinn fær nafn sitt af þessu, eða vegna þess að hann kann vel við sig á sandbotni. 

Útbreiðsla

Sandkolinn er hreinn grunnsævisfiskur og heldur sig oftast á sand- eða leirbotni á 0 til 40 metra dýpi. Hann finnst allt í kringum landið. Ef koli er veiddur við bryggju einhversstaðar á Íslandi er líklegast að þar sé um sandkola að ræða. Sandkolinn finnst aðeins austanmegin í Atlantshafinu, frá Barentshafi að Biscayaflóa. Í Norðursjó er hann á meðal algengustu fisktegunda.

Lífshættir

Vöxtur er hraður fyrstu árin en það hægir verulega á honum eftir kynþroska við 2 til 3 ára aldur hjá hængum en 3 til 4 ára hjá hrygnum. Hrygnur vaxa hraðar og ná hærri aldri en hængar eða allt að 14 ára aldri. Fæða sandkolans er breytileg, hann er tækifærissinni og ræður við stóra bráð. Ýmsir botnlægir hryggleysingjar eru algengir í fæðunni, einnig sandsíli og loðna. Úrgangur frá fiskibátum finnast oft í maga sandkolans.

Nytjar

Fram til 1984 var sandkolinn lítið veiddur við Ísland enda verðlítill miðað við aðrar kolategundir. Á hinn bógin jókst afli íslenskra skipa verulega eftir að aflamark var sett á aðrar verðmætari tegundir. Afli náði hámarki, 8.000 tonnum, seint á 9. áratuginum en hefur minnkað verulega síðan þá. Þetta helgast af því að bæði var sandkolinn ofveiddur á stærstu sandkolamiðunum í Faxaflóa og vegna þess að sandkolinn er í raun verðlítil tegund. Þar sem hann er verðlítill veiðist hann nú aðallega sem meðafli við aðrar kolaveiðar í dragnót.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This