Möttuldýr

Tunicata

Af öllum hryggleysingjum Íslands eru möttuldýr skyldust okkur hryggdýrunum þó ekki sé með nokkru móti hægt að sjá það á fullorðnum einstaklingum. Þau eru af fylkingu seildýra eins og við.

Þetta eru kúlulaga lífverur sem eru fastar við botninn. Sumar tegundir sem hér finnast geta verið á stærð við tenniskúlur, til dæmis hinn eldrauði eplamöttull (Halocyntia pyriformis) sem sést hér á nokkrum myndum.

Margar tegundir eru sambýlisdýr og minna þá einna helst á svampa eða mottu á undirlaginu.

Lirfustig möttuldýranna kemur upp um ætterni þeirra því þá minna þau einna helst á halakörtur, gjörólíkt fullorðinsstiginu.

Möttuldýr skiptast í þrjá hópa, botnlæg möttuldýr (ascidiacea) sem eplamöttullinn tilheyrir og tvo hópa að sviflægum möttuldýrum.

Svokölluð lirfudýr (appendicularia), sem eru sviflæg möttuldýr, halda lirfuútliti alla ævi. Salpar (thaliacea) eru líka sviflæg möttuldýr. Þeirra verður einna helst vart hér við land þegar hlýtt er í sjónum. Þeir eru hveljukenndir og geta fjölgað sér gríðarhratt. Jafnvel þannig að það skapar vandamál fyrir skip og veiðarfæri.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This