Lúða

Hippoglossus hippoglossus (Atlantic halibut)

Lúðan er á meðal stærstu beinfiska í heiminum en stærsta lúðan sem fundist hefur var 4,7 m.

Útbreiðsla

Lúðan lifir í öllu norðanverðu Norður-Atlantshafinu og náskyld tegund, kyrrahafslúðan, finnst í Norður-Kyrrahafinu. Lúðan finnst allt í kringum landið en er algengari í hlýsjónum sunnan og vestan við landið. Hún hrygnir á um 2000 m dýpi og finnst ungviðið á grunnslóð við eins árs aldurinn. Smálúðurnar færa sig svo smám saman dýpra, og við 9-10 ára aldurinn sameinast þær fullorðna stofninum sem heldur sig mest á meira dýpi.

Lífshættir

Lúðan verður kynþroska við 7 til 14 ára aldur, hængarnir fyrr en hrygnurnar. Eins og flestir flatfiskar er lúðan botnfiskur sem finnst yfirleitt á sand- eða leirbotni. Hún hefur mikla matarlyst og étur flest sem hún kemst yfir og þá aðallega aðra fiska.

Nytjar

Lúðan hefur líklegast verið veidd á Íslandsmiðum allt frá landnámi en ekki í miklu magni fyrr en undir lok 19. aldar. Fyrsti togarinn kom til veiða á Íslandsmiðum árið 1891, hann var enskur. Erlendum togurum fjölgaði hratt eftir það þangað til togaraútgerðin var fullþróuð við aldamótin. Sumir halda að þessir togara hafi fyrst og fremst verið hér til að veiða þorsk. Það er þó ekki raunin þar sem eftirsóttasti aflinn var flatfiskur, aðallega skarkoli og lúða. Bandarískar skonnortur frá Gloucester sóttu einnig á íslensk lúðumið milli 1880 og 1890 en þetta eru einu fiskveiðarnar sem Bandaríkjamenn hafa stundað á Íslandsmiðum. 

Bein sókn í lúðuna undanfarið er aðeins með línu. Þessi veiðiaðferð hefur þó nánast lagst af síðustu ár vegna lítils afla. Hins vegar veiðist lúðan líka í flest önnur veiðarfærum. Ung lúða er veidd á dragnót, línu og net á grunnslóð en togarar veiða eldri lúðu dýpra. Veiðarnar, sem beinast beint að lúðu, fara hins vegar fram enn dýpra, elsta og stærsta lúðan veiðist þar.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This