Hlýri

Anarhichas minor

Hlýrinn er líkur náfrænda sínum steinbítnum að mörgu leyti, nema hann hefur bletti líkt og hlébarði. Hann getur líka orðið stærri eða allt að 144 cm langur. Óstaðfestar heimildir benda til þess að hann geti náð 180 cm hámarksstærð.

Útbreiðsla

Hann finnst allt í kringum landið, en er algangari í kalda sjónum norðan og austan við landið. Hann kýs dýpri sjó en steinbíturinn og er oftast að finna á 100 til 700 m dýpi, aðallega á leir- eða sandbotni.

Lífshættir

Hlýrinn er með sterka kjálka, en þó ekki jafn sterka og steinbíturinn. Hins vegar er hlýrinn með beittari tennur þannig að álitamál er hvort verra er að láta hlýra eða steinbít bíta sig. Hlýrinn nærist aðallega á skrápdýrum eins og slöngustjörnum. Athyglisvert er að hann er alls ekki góður vinur frænda síns, steinbítsins, hlýranum finnst nefnilega gott að borða egg steinbítsins. Mjög lítið er vitað um hrygningu hlýrans.

Nytjar

Hlýrinn er veiddur allt árið umkring. Aflinn fyrir 1975 er óþekktur þar sem steinbítur og hlýri voru ekki aðgreindir í afla. Eftir að veiðiskýrslur urðu áreiðanlegri, voru veiðarnar nálægt 1.000 tonnum á ári þar til seint á 9. áratugnum þegar þær jukust verulega. Núverandi afli er nálægt 2.000 tonnum. Hlýrinn er að mestu meðafli í botnvörpu og er unninn á svipaðan hátt og steinbíturinn.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This