Gullkarfi

Sebastes norvegicus

Gullkarfinn er einn af algengustu og mikilvægustu nytjafiskum á Íslandsmiðum.

Útbreiðsla

Hann finnst allt í kringum landið bæði nálægt botni og miðsævis (yfirleitt um nætur). Hann getur því flokkast sem botnfiskur með uppsjávarhneigð. Gullkarfinn finnst beggja megin Atlantshafsins og hefur svipaða útbreiðslu og þorskurinn.

Lífshættir

Helsta fæða allra karfategundanna er dýrasvif en einnig litlir fiskar eins og loðna. Mikilvægasti einstaki fæðuhópurinn er ljósáta.

Karfi getur orðið mjög gamall, líklega einhverra tuga ára. Það er hins vegar mjög erfitt að greina nákvæmlega hvað hann getur orðið gamall. Aldur fiska er greindur á árhringjum í kvörnum sem eru laus bein í höfði þeirra. Þegar fiskar verða mjög gamlir og eru hægvaxta eins og karfarnir þá liggja þessir árhringir mjög þétt saman og erfitt verður að greina þá sundur. Vöxtur karfa er eins og fyrr segir mjög hægur og hann verður kynþroska við 12 til 15 ára aldur. Fiskurinn er þá um 35 cm langur. Algeng stærð í afla er í kringum 40 cm en einstaka risafiskar mælst 100 cm og 15 kg. Þetta eru aldamótakarfarnir sem minnst hefur verið á.

Nytjar

Frekar lítið var veitt af karfa hér við land fram til um 1950. Þá jókst afli mjög hratt og var um 150 þúsund tonn í um áratug. Íslendingum þótti karfinn nefnilega ekki merkilegur fiskur upphaflega, honum var hent ef hann veiddist sem meðafli. Eftir 1935 var þó farið að sækja beint í karfann en ekki í mannamat heldur bræðslu. Vestur-Þjóðverjar veiddu miklu meira hér við land enda karfinn vinsæll matur í Þýskalandi. Svo sérkennilega vill til að Íslendingar veiddu á tímabili þeim mun meira af karfa úti fyrir Austur-Grænlandi og á Nýfundnalandsmiðum en við Ísland. Þetta var vegna þess að ný mið fundust á þessum svæðum þar sem hægt var að veiða ofboðlega mikið á stuttum tíma. Löng sigling þangað borgaði sig því.

Með tímanum hefur karfinn öðlast virðingu fyrir að vera góður matfiskur. Helstu veiðislóðirnar eru við landgrunnskantinn á 200 til 400 m dýpi sunnan og vestan við Ísland. Lengi vel var karfaafli ekki greindur til tegunda. Líklegt er þó að karfaafli á Íslandsmiðum fram til um 1980 hefur að mestum hluta verið gullkarfi, þar sem hann er mjög algengur og heldur sig grynnra en hinar tegundirnar. Hann er því auðveiddastur.

Eftir þorskastríðin og brottvísun erlendra flota af Íslandsmiðum jókst afli íslenskra skipa um tíma. Þetta er vegna þess að þýsku skipin gátu ekki lengur aflað karfa fyrir markaði í Þýskalandi og Íslendingar komust þar að í staðinn. Enn þann dag í dag er stærsti markaðurinn fyrir íslenskan karfa í Þýskalandi. Aukið magn er þó selt til annarra Vestur-Evrópuríkja sem og til Japan. Gullkarfaafli á Íslandsmiðum hefur dregist saman síðustu tvo áratugi með hertum stjórnunaraðgerðum. Á móti kemur að veiðar jukust á djúp- og úthafskarfa sem fjallað er um hér á eftir. Gullkarfi er nánast eingöngu veiddur með botnvörpu.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This